Yndisgróður: Frétt
Senda fyrirspurn
Minnka letur
Stækka letur

Um Yndisgróður

Um Yndisgarða

Plöntuleit

Skilgreiningar

Harðgerði og vaxtarsvæði

Skjólbelti framtíðar 

Götutré 

Fjölærar plöntur

Úrvalsyrki

Planta mánaðarins

  

 

 

 

29.apríl.2014

Yndisgróður hlaut hvatningarverðlaun garðyrkjunnar 2014

Umsögn:

Hvatningaverðlaun garðyrkjunnar 2014
Yndisgróður – samstarfsverkefni um garð- og landslagsplöntur fyrir íslenskar aðstæður, verkefnisstjóri Samson Bjarnar Harðarson hjá Landbúnaðarháskóla Íslands
Verkefnið Yndisgróður hófst þann 1. júlí 2007 með styrk frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins, landbúnaðarráðuneytinu og Norðurslóðaáætlun (NPP). Yndisgróður er samstarfsverkefni Landbúnaðarháskóla Íslands, Grasagarðs Reykjavíkur, Rannsóknarstöðvar Skógræktar á Mógilsá og Félags garðplöntuframleiðenda sem ásamt Ræktunarstöð Reykjavíkurborgar hafa lagt til nær allar plöntur endurgjaldslaust. Markmið verkefnisins hefur frá upphafi verið „að finna bestu hentugu garð- og landslagsplöntur sem völ er á fyrir íslenskar aðstæður og miðla upplýsingum um þær“.

Verkefnið hefur safnað ítarlegum upplýsingum um garð- og landslagsplöntur í sérhannaðan gagnagrunn þar sem 726 yrki af um 180 tegundum trjáa og runna hafa verið skráð, auk upplýsinga um harðgerði, ræktunar- og notkunarmöguleika, uppruna þeirra og staðsetningu í plöntusöfnum.  Á heimasíðu Yndisgróðurs má meðal annars finna upplýsingasíðu um einstakar tegundir og yrki sem mælt með til notkunar hérlendis.
Eitt aðalverkefni Yndisgróðurs hefur verið uppbygging klónasafna og sýnireita á nokkrum stöðum á landinu, svokallaðra yndisgarða. Þeir eru sex talsins og eru staðsettir á Blönduósi, í Sandgerði, Laugardalnum í Reykjavík, Fossvogi í Kópavogi, á Hvanneyri og hér á Reykjum í Ölfusi sem jafnframt er aðalsafn verkefnisins. Yndisgróður hefur átt mjög gott samstarf við þau sveitarfélög sem hafa lagt til land, vinnu og kostnað við gerða garðanna og umhirðu.
Yndisgarðarnir hafa þríþætt hlutverk. Í fyrsta lagi að varðveita úrval erfðarauðlindar íslenskra garð- og landslagsplantna, í öðru lagi til að rannsaka harðgerði og eiginleika þessara plantna og í þriðja lagi til að vera sýnireitir fyrir fagfólk og almenning.  Á komandi árum mun Yndisgróður leggja áherslu á vali á úrvalsyrkjum og markaðssetningu þeirra.
Verkefnið Yndisgróður er fyrsta verkefni sinnar tegundar á Íslandi þar sem farið er heildstætt í velja það besta úr íslenskum plöntuefniviði og opnar jafnframt möguleika á að kynbæta enn frekar úr þessum úrvalsefniviði og fá plöntur sem eru sérsniðnar fyrir íslenskar aðstæður.  Skólinn telur því vel við hæfi að veita Yndisgróðursverkefninu hvatningaverðlaun garðyrkjunnar 2014 og vonar að það eigi langa lífdaga framundan.

Til baka Byggir á LiSA - Eskill, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi

Nytjaplöntur á Íslandi
2011