Yndisgróður: Tegundaval
Senda fyrirspurn
Minnka letur
Stækka letur

Um Yndisgróður

Um Yndisgarða

Plöntuleit

Skilgreiningar

Harðgerði og vaxtarsvæði

Skjólbelti framtíðar 

Götutré

  Umhverfi göturtrjáa

  Tegundaval

Fjölærar plöntur

Úrvalsyrki

Val á tegundum götu- og torgtrjáa

Hér á eftir er umfjöllun um nokkrar algengar trjátegundir sem notaðar hafa verið sem götutré. Þær henta þó misvel sem götutré og er fjallað um helstu kosti og galla þeirra er í töflu við hverja tegund.

Myndin hér að neðan sýnir hentugar tegundir fyrir mismunandi umhverfi.

 

 

Tegundur sem henta vel í umhverfi A eru: Alaskaösp, Álmur, Silfurreynir og hugsanlega Lind.

 

Alaskaösp

Alaskaösp er harðgerasta götutré sem völ er á enn sem komið er. Hún kemur almennt fljótt og vel til eftir gróðursetningu og er nógu stórvaxin og stofnhá til að henta í götuumhverfi.

Alaskaösp hentar í umhverfi A, þar sem nægt rými er og öflugt rótarkerfi veldur ekki vandræðum. Hún er kjörin í umhverfi A/B svo sem á stórum opnum svæðum með vegum. Alaskaösp er fremur skammlíf tegund og getur orðið hættuleg vegna mögulegs greinabrots eftir 50-60 ára aldur en er annars okkar verðmætasta götutré þar sem aðstæður leyfa.

 

Alaskaösp

Þol

Athugasemdir

Aðlögun að loftslagi

A

Góð aðlögun að loftslagi og haustar sig almennt örugglega.

Mótstaða gegn sjúkdómum

B

Meðalgóð mótstaða gegn sjúkdómum. Asparryð getur rýrt útlit trjáa og valdið kali í vissum klónum í slæmum ryðárum. Stakstæð tré fara þó sjaldan mjög illa út úr ryði.

Aðlögun að umhverfi

B

Meðal aðlögunarhæfni að umhverfi, þolir ekki mikinn skugga, verður teygð og gisin við slíkar aðstæður. Klónaval skiptir miklu máli.

Fagurfræðilegir eiginleikar

B

Meðal. Laufgun vissra klóna á vorin mjög falleg. Mikil óþrif af fræ ull kvenklóna.

Félagslegir þættir

A & C

Mjög umdeilt tré og hefur oft valdið deilum sérstaklega vegna stærðar sinnar. Fólk skiptist gjarnan í fylkingar með eða á móti.

Gæði og eiginleikar rótarkerfis

B- C

Meðalgott rótarkerfi, sem leitar víða, er til bóta fyrir tréð en oft til skaða fyrir byggt umhverfi.

Vaxtarlag og form

B

Mjög breytilegt eftir klónum frá súlulaga hávöxnum til krónubreiðra og meðalháa. Auðfjölgað sem klónn.

Vindþol

A

Mikið vindþol hjá sumum klónum, annars meðal vindþol.

Þurrkþol

B-C

Meðal þurrkþol, ef rótarkerfi nær að vaxa víða annars fremur lítið.

Hætta á greinabroti

B-C

Gömul tré geta orðið hættuleg.

Þol gegn mengun

B

Meðal mengunarþol.

Saltþol

A, B

Mikið til meðal saltþol. Þolir illa mikið salt í jarðvegi, breytilegt eftir klónum.

_________________________________________________________________________________________

 

Álmur                                                                                                                                                                                                   Álmur var áður eitt algengasta götu- og garðtré í Evrópu og náskyld tegundinni Ulmus americana í Norður–Ameríku. Álmur er formfagur, með háan stofn, vind- og saltþolinn, þolir vel mengun, þéttan jarðveg, er skuggþolinn og tekur klippingu mjög vel og hefur þannig sem tegund til að bera góða eiginleika sem götutré. Álmsýki hefur hins vegar valdið því að frá því um 1920 hafa nær öll tré drepist í Evrópu og Norður-Ameríku. Einungis í norðlægustu útbreiðslusvæðum hefur álmsýkin ekki breiðst út. Áhættan að álmsýkin berist til Íslands verður að teljast fremur lítil en er þó til staðar. Álm mætti nota hérlendis sem götutré í umhverfi A og A/B, ef notuð eru harðger kvæmi eða yrki og stórar plöntur. Ef vel tekst til gæti álmur orðið okkar verðmætasta götutré og ætti því að gera tilraunir með hann við slíkar aðstæður hérlendis. Líklegast til árangur væri að gróðursetja stórar plöntur sem ræktaðar eru hérlendis. Álmur er vindþolið, saltþolið og verðmætt götutré.

Álmur

Þol

Athugasemdir

Aðlögun að loftslagi

B

Meðal aðlögunarþol að loftslagi.

Mótstaða gegn sjúkdómum

B-C

Meðal mótstaða gegn sjúkdómum, nema ef álmsýki bærist og gæti valdið usla hér. Getur fengið lús sem skemmir blöð.

Aðlögun að umhverfi

A

Mikil aðlögunarhæfni að umhverfi. Er skuggþolinn og þolir vel klippingu.

Fagurfræðilegir eiginleikar

B

Króna er mjög falleg. Getur fengið lús sem gerir blöð ljót.

Félagslegir þættir

B

Engir sérstakir félagslegir eiginleikar.

Gæði og eiginleikar rótarkerfis

A

Mjög gott rótarkerfi og heppilegir eiginleikar.

Vaxtarlag og form

A

Mjög gott vaxtarlag og form. Stórvaxið tré.

Vindþol

A

Mikið vindþol.

Þurrkþol

A-B

Mikið til meðal þurrkþol.

Hætta á greinabroti

B

Meðal hætta á greinabroti á gömlum trjám.

Þol gegn mengun

A

Mikið mengunarþol.

Saltþol

A

Mikið saltþol.

 

________________________________________________________________________________________

 

Silfurreynir

Silfurreynir er harðgert, vind- og saltþolið tré og hefur marga góða eiginleika sem götutré en getur verið nokkuð vangæfur í uppeldi og fyrst eftir útplöntun. Helsti galli hans sem götutré er að hann er nokkuð stofnlágur.

Silfurreynir má vel nota hérlendis sem götutré í umhverfi A/B, þar sem nægt rými er og lág króna hans veldur ekki vandræðum. Tímasetning og aðhlynning við og eftir gróðursetningu er afar mikilvæg. Mögulegt að nota í umhverfi A ef plantað er stórum trjám með 1,8 -2,5 m stofnhæð og gætt sérstaklega vel að öllum þáttum og aðstæður eru ekki of erfiðar. Silfurreynir er langlíft og verðmætt götutré.

 

Silfurreynir

Þol

Athugasemdir

Aðlögun að loftslagi

B

Meðal aðlögunarþol að loftslagi. Haustar sig fremur seint en kelur sjaldan, myndar sjaldan þroskuð fræ. Fær oft áfall við gróðursetningu og vex þá lítið í mörg ár.

Mótstaða gegn sjúkdómum

B

Meðal mótstaða gegn sjúkdómum.

 

Aðlögun að umhverfi

B

Meðal aðlögunarhæfni að umhverfi.

Fagurfræðilegir eiginleikar

B

Fallegt krónuform en litlir eða engir haustlitir og ber þroskast seint og illa.

Félagslegir þættir

A, B

Jákvæð ímynd gagnvart gömlum trjám eins og því í Fógetagarðinum gróðursett 1884. Að öðru leyti engir sérstakir.

Gæði og eiginleikar rótarkerfis

A, B

Meðalgott – gott rótarkerfi, nokkuð djúpstætt, þolir blautan og/eða súrefnissnauðan jarðveg mun betur en t.d. reyniviður.

Vaxtarlag og form

B

Meðalgott vaxtarlag og form, stofnhæð full lág.

Vindþol

A

Mikið vindþol.

Þurrkþol

B

Meðal þurrkþol, þolir betur salt í jarðvegi en reyniviður.

Hætta á greinabroti

A

Lítil hætta á greinabroti.

Þol gegn mengun

B

Meðal mengunarþol.

Saltþol

A

Mikið saltþol. Þolir illa mikið salt í jarðvegi.

 

 

_________________________________________________________________________________________

 

Lind

Af öllum trjám sem ræktuð eru sem götutré í Norður-Evrópu er lind það tré sem hefur reynst harðgerast og heppilegast í erfiðu götuumhverfi. Í ljósi þess að lind hefur yfirburði sem götutré víða erlendis er áhugavert að reyna hvort möguleiki sé á að nota hana hér á landi og hefur Reykjavíkurborg plantað út nokkrum trjám í tilraunaksyni við Þórsgötu.

Lind mætti reyna að nota hérlendis sem götutré í umhverfi A, AB og B, ef notuð eru harðger kvæmi eða yrki t.d. ´Siivonen´eða ´Pallida´ og stórar plöntur. Ef vel tekst til gæti lind orðið verðmætt götutré og ætti því að halda áfram tilraunum við slíkar aðstæður hérlendis. Líklegast til árangur væri að gróðursetja stórar innfluttar plöntur.

 

Lind

Þol

Athugasemdir

Aðlögun að loftslagi

?

Vantar reynslu.

Mótstaða gegn sjúkdómum

B, C

Meðal mótstaða gegn sjúkdómum.

Aðlögun að umhverfi

A

Mikil aðlögunarhæfni að umhverfi. Er skuggþolin og þolir vel klippingu.

Fagurfræðilegir eiginleikar

B

Króna er mjög falleg. Laufblöð falleg.

Félagslegir þættir

B

Engir sérstakir félagslegir eiginleikar.

Gæði og eiginleikar rótarkerfis

A

Mjög gott rótarkerfi og heppilegir eiginleikar.

Vaxtarlag og form

A

Mjög gott vaxtarlag og form. Stórvaxið tré.

Vindþol

B

Mikið vindþol en óvist hérlendis.

Þurrkþol

A, B

Mikið til meðal þurrkþol.

Hætta á greinabroti

 B

Meðal hætta á greinabroti á gömlum trjám.

Þol gegn mengun

A

Mikið mengunarþol.

Saltþol

A

Mikið saltþol, óvist hérlendis.

 
 
 

_________________________________________________________________________________________

 

Gráreynir

Gráreynir hefur marga sömu eiginleika og silfurreynir en er þó almennt smávaxnari og skammlífari. Hann er harðgerari en silfurreynir og blómstrar og ber þroskuð aldin bæði fyrr og árvissara en hann.  Einnig er hann talinn þolnari gegn sveppasýkingunni skyrfi.

Gráreynir af yrkinu ´Bergur´ frá Bræðraborgarstíg mætti nota hérlendis sem götutré í umhverfi A/B, þar sem nægt rými er og lág króna hans veldur ekki vandræðum. Tímasetning og aðhlynning við og eftir gróðursetningu er afar mikilvæg. Mögulegt að nota í umhverfi A með því að planta stórum trjám, 2-3 metra stofnhæð, og gæta sérstaklega vel að öllum þáttum og að aðstæður séu ekki of erfiðar. Gráreynir er saltþolið og verðmætt götutré.

Gráreynir

Þol

Athugasemdir

Aðlögun að loftslagi

A

Góð aðlögun að loftslagi og haustar sig örugglega.

Mótstaða gegn sjúkdómum

B

Meðal mótstaða gegn sjúkdómum.

 

Aðlögun að umhverfi

B

Meðal aðlögunarhæfni að umhverfi.

Fagurfræðilegir eiginleikar

B

Meðal. Blómstrar í lok júní, þroskar falleg rauð ber um miðjan september. Fallegt krónuform en litlir haustlitir.

Félagslegir þættir

A-B

Jákvæð ímynd gagnvart gömlum trjám. Að öðru leyti engir sérstakir.

Gæði og eiginleikar rótarkerfis

A-B

Meðalgott – gott rótarkerfi, nokkuð djúpstætt, þolir blautan og/eða súrefnissnauðan jarðveg mun betur en t.d. reyniviður.

Vaxtarlag og form

B

Meðalgott vaxtarlag og form, stofnhæð full lág. Fjölgar sér með geldæxlun og því allar plöntur eins af fræi.

Vindþol

A

Mikið vindþol.

Þurrkþol

B

Meðal þurrkþol, þolir betur salt í jarðvegi en reyniviður.

Hætta á greinabroti

A

Lítil hætta á greinabroti.

Þol gegn mengun

B

Meðal mengunarþol.

Saltþol

A

Mikið saltþol. Þolir illa mikið salt í jarðvegi.

_________________________________________________________________________________________

 

Gráelri

Gráelri hefur marga eiginleika sem henta fyrir götutré. Tegundin þolir að vaxa í þurrum ófrjósömum jarðvegi vegna hæfileika þess til að framleiða sitt eigið köfnunarefni með sambýli við Frankia bakteríu. Það þolir einnig að vera í blautum jarðvegi, þó einungis til skamms tíma. Gráelri getur myndað nægjanlega háan stofn fyrir minni götur að minnsta kosti, og má í því samhengi benda á trén við Austurvöll sem sýna að tegundina má vel nota sem borgartré. Elri er skuggþolnara en birki og heldur því betur þéttri krónu í skuggsælu götuumhverfi. Króna gráelris verður breið og falleg með tímanum en varpar ekki þungum skugga. Gráelri mætti nota hérlendis sem götutré í umhverfi A/B og jafnvel í umhverfi A þar sem lág króna er ekki til vandræða og stór tré með a.m.k. 1,8 metra háum stofni eru gróðursett.

 

Gráelri

Þol

Athugasemdir

Aðlögun að loftslagi

A

Góð aðlögun að loftslagi og haustar sig örugglega.

Mótstaða gegn sjúkdómum

A

Ágæt mótstaða gegn sjúkdómum.

 

Aðlögun að umhverfi

B

Meðal aðlögunarhæfni að umhverfi, en á það til að verða margstofna og runnkennt við erfiðar aðstæður. Sólelskt.

Fagurfræðilegir eiginleikar

B

Falleg króna en gráleitt yfirbragð og skortur á haustlitum.

Félagslegir þættir

B

Engir sérstakir, nema helst hjá tíðum gestum undir gráelrinu við Austurvöll.

Gæði og eiginleikar rótarkerfis

B

Meðalgott, en frekar grunnstætt rótarkerfi. Sendir út rótarskot.

Vaxtarlag og form

B

Fallegt vaxtarlag en smávaxið og stofnhæð full lág. Á það til að verða margstofna og runnkennt við erfiðar aðstæður.

Vindþol

B

Meðal vindþol.

Þurrkþol

A

Mikið þurrkþol.

Hætta á greinabroti

A

Lítil hætta á greinabroti.

Þol gegn mengun

B

Meðal mengunarþol.

Saltþol

B

Meðal saltþol.

_________________________________________________________________________________________

 
 
Ýmsar tegundir sem henta ekki í erfitt götuumhverfi geta samt sem áður staðið sig vel í umhverfi A/B, þar sem rými fyrir tré og rætur þess er meira, yfriborðið gegndræpt eða umferð lítil, t.d. stærri beð og stór svæði meðfram vegum.

 

Reyniviður

Reyniviður hefur verið í reynslu sem götutré í Reykjavík frá því um 2000. Hann hefur hins vegar ekki sýnt góð þrif sem götutré nema helst þar sem lítið álag er af völdum salts og vinds og trén varin fyrir skemmdum á berki og greinum.

Hann er nothæfur sem götutré í umhverfi A/B. Mikilvægt er að vefjarækta valda klóna til að fá jafna og áreiðanlega einstaklinga. Plöntur til útplöntunnar þurfa að vera ræktaðar í gróðrarstöð með 1,8-2,5 metra háan stofn til að tryggja að endanleg stofnhæð verði næg og koma í veg fyrir skemmdarverk.

 

Reyniviður

Þol

Athugasemdir

Aðlögun að loftslagi

A

Mikið aðlögunarþol að loftslagi,

þrífst þó síður í sjávarlofti.

Mótstaða gegn sjúkdómum

C

Lítið mótstaða gegn sjúkdómum, sérstaklega reyniátu.

Aðlögun að umhverfi

B-C

Meðal aðlögunarhæfni að umhverfi, þolir illa skugga og rask.

Fagurfræðilegir eiginleikar

A

Miklir fagurfræðilegir eiginleikar,

blómgun, aldinmyndun og fallegt lauf.

Félagslegir þættir

A

Jákvæðir félagslegir eiginleikar,

íslensk tegund sem blómstrar á þjóðhátíðardaginn.

Gæði og eiginleikar rótarkerfis

B

Meðalgott rótarkerfi, en þolir ekki blautann og/eða súrefnissnauðann jarðveg.

Vaxtarlag og form

B-C

Meðalgott vaxtarlag og form ef um klónaræktað yrki er að ræða, annars lélegt eða breytilegt. Stofnlágur

Vindþol

B

Meðal vindþol

Þurrkþol

B

Meðal þurrkþol, nema lítið ef salt er í jarðvegi og rótarrými lítið.

Hætta á greinabroti

A

Lítil hætta á greinabroti

Þol gegn mengun

B

Meðal mengunarþol

Saltþol

C

Lítið saltþol. Þolir illa salt í jarðvegi. Salt eykur hættu á reyniátu.

 
_________________________________________________________________________________________
 
 
Umfjöllun um fleiri tegundir er væntanleg á þessa síðu en jafnframt er bent á rit um götutré þar sem er að finna ítarlegri upplýsingar um tegundaval og ræktun götutrjáa.
 
 
 
Byggir á LiSA - Eskill, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi

Nytjaplöntur á Íslandi
2011