Í ágúst fengum við heimsókn frá meðlimum Nordisk Arboretum Committee (NAC) sem er hópur trjásérfræðinga frá Norðurlöndum. Meðlimir NAC starfs ýmist í trjásöfnunm, grasagörðum, hjá bæjarfélögum eða háskólum og eiga það sameiginlegt að hafa sérstakan áhuga á trjám og skógrækt. Hópurinn fundar árlega samhliða fræðsluferð þar sem skipst er á að bjóða til sín. Þetta árið tókum við frá Yndisgróðri á móti þeim á vegum Lbhí, funduðum og flökkuðum um landið í viku. Fulltrúar frá Skógræktinni á móti okkur á Mógilsá, í Skorradal, Haukadal, að Tumastöðum, í Múlakoti og í Hekluskógum. Skógræktin í Hafnarfirði var heimsótt og Hjörtur í grasagarðinum var með leiðsögn um garðinn. Jón Guðmundsson, plöntulífeðilsfræðingur var heimsóttur að landareign hans í Fljóthlíð þar sem hann hefur grætt upp örfoka land með belgjurtum. Yndisgróður verkefnið var kynnt og garðurinn á Hvanneyri heimsóttur. Kunnum við öllum sem tóku á móti okkur bestu þakkir fyrir.  

Samstarf sem þetta er mikilvægt og gefur innsýn í sambærilega vinnu í nágrannalöndunum. Við kynnumst meðal annars hvernig staðið er það því að merkja og halda utan um plöntusöfn erlendis, getum nýtt okkur ýmsilegt og átt í samstarfi með Yndisgróður verkefnið. 

Meiri huti hópsins í þetta sinn var frá Svíþjóð; Linne garðinum í Uppsölum og Arboretum Norr við Umeå (eitt af nyrðstu tjrásöfnum heims). Tveir komu frá Helsinki og hafa starfað í Mustila trjásafninu og einn frá trjásafninu í Hørsholm við Kaupmannarhafnarháskóla. Því miður komst enginn frá Noregi og Rússlandi í þetta sinn.