Skjólbelti framtíðar – plöntuval og samsetning

Verkefnið Skjólbelti framtíðar byggir á rannsóknum Yndisgróðurs sem gengur út að þróa heppilega samsetningu tegunda og sjálfbærar lausnir í uppbyggingu skjólbelta fyrir íslenskar aðstæður. Meginmarkmiðið er að finna bestu hentugu skjólbeltaplöntur sem völ er á fyrir íslenskar aðstæður, gera fyrirmyndarskjólbelti og miðla upplýsingum um tegundir og fyrirkomulag.

Litlar rannsóknir hafa verið gerðar á tegundavali í skjólbeltarækt, nema helst með víði. Gagnsemi skjólbelta er þó vel þekkt og hefur skipulögð skjólbeltarækt verið stunduð á Íslandi í rúmlega hálfa öld. Þá hefur mest verið notast við víði sem er frumherjategund og kemur því fljótt til. Hann hefur þó vissa galla, endist stutt i ræktun, er ásetinn af skordýrum og sveppasjúkdómum og þolir illa samkeppni um birtu og næringu frá öðrum gróðri.

Til að tegundir geti talist hentugar í ræktun skjólbelta þurfa þær m.a. að uppfylla kröfur um:

 

  • samvist með öðrum tegundum og hversu vel þær henta við uppbyggingu á skjólbeltum

 

  • harðgeri, þær þurfa að þola veðráttuna sem einkennir íslenskar aðstæður

 

  • langlífi og úthald/endingu

 

  • heilbrigði

 

  • formgerð t.d. hvort tegund sé þéttur runni og geti vaxið undir trjám

 

  • runnar þurfa að vera skuggþolnir

 

Yndisgróður lét gróðursetja í lítið skjólbelti við tilraunahúsið á Hvanneyri vorið 2014. Út frá því, og byggt á rannsóknum Yndisgróðurs, var gerður listi yfir tegundir og yrki sem þóttu hentugar í skjólbelti og útbúið lítið sýnibelti á Hvanneyri.

Hér má nálgast uppdrátt og plöntulista fyrir skjólbeltið á Hvanneyri.

Hér má nálgast skýrslu um verkefnið: Skjólbelti framtíðar.

Hér má nálgast kynningu Samsonar Bjarnars Harðarsonar frá fagráðstefnu skógræktar 2016.