Notkunarflokkar

Plöntur hafa ólíka eiginleika til notkunar fyrir mismunandi staði og tilgang.  Hér eru helstu notkunarflokkar skilgreindir og tilgreint hvaða eiginleika plöntur þurfa að bera til þess að uppfylla skilyrði notkunarflokksins.

Botnþekjandi runnar

Runnar sem geta myndað lokaða plöntuþekju lágvaxinna planta (af einni eða fáum tegundum/yrkjum) sem þarfnast lágmarks umhirðu.

Tilgangur með útplöntun á botnþekjandi plöntum er að fá einsleita gróðurþekju sem hindra óæskilegar plöntur (illgresi) að vaxa á viðkomandi stað.

Góðar þekjuplöntur þurfa helst að vera skuggþolnar og laufgast snemma.

Limgerði klippt

Plöntur sem henta í klippt limgerði þurfa að hafa þá eiginleika að mynda eina samfellda afmarkaða og þétta klippta gróðurheild. Tilgangur limgerða er að vera til afmörkunar, aðgreiningar eða myndun veggs sem bakgrunn fyrir garðrými og annan gróður eða garðhluti s.s. styttur. Einnig til að skýla fyrir vindi eða innsýn.

Góðar limgerðistegundir þurfa að:

  1. þola klippingu 1-3 sinnum á ári án þess að það rýri gildi plöntunnar í hlutverkið
  2. geta brotið ný brum frá stofni eða grein, þ.e. þétti sig,
  3. að plantan haldist heilbrigð þrátt fyrir klippingu s.s. gagnvart sjúkdómum.
  4. Þéttvaxnar og skuggþolnar sérstaklega þar sem ekki er full birta á allar hliðar.

Limgerði óklippt

Plöntur í óklippt limgerði þurfa að mynda eina gróðurheild, hlutverk þeirra er það sama og klipptra limgerða en er ekki eins skýrt og afgerandi. Óklippt limgerði hefur þann kost að þar geta hentugir blómstrandi runnar notið sín.

Plöntur sem henta í óklippt limgerði þurfa

Plöntur sem henta í óklippt limgerði þurfa að hafa þá eiginleika að mynda eina samfellda afmarkaða gróðurheild án þess að klippingar sé þörf. Þeir þurfa því að vera nokkuð uppréttir og þéttir í vaxtarlagi og helst þola að vera klipptir niður til endurnýjunar á nokkurra ára fresti.

Einkagarður

Plöntur sem henta í einkagarða þurfa að vera heilbrigðar, fallegar og af hæfilegri stærð fyrir litla og meðalstóra einkagarða og sem krefjast hæfilegrar umhirðu. Þetta eru gjarnan skrautlegar plöntur t.d. vegna blóma, blaðlits blaðlögunar og vaxtarforms. Umhirða er breytileg eftir tegundum og yrkjum. Plöntur í þessum flokki henta einnig fyrir samplantanir við t.d. innganga á opinberum stöðum og stofnunum.

Fláar

Plöntur sem henta vel til að mynda fallegar og lítið umhirðukrefjandi beðjur í fláa eða önnur hallandi svæði með halla 1:3 eða meira. Plönturnar þurfa að geta lokað jarðvegsyfirborði (sjá botnþekjandi runnar) til að hindra vöxt illgresis og minka þar með umhirðukostnað, en auk þess að hafa rótarkerfi sem bindur jarðveg og hindrar þannig jarðvegseyðingu.

Plöntuker

Plöntur sem henta í plöntuker þurfa að geta þrifist og vaxið eðlilega í litlum jarðvegi (litlu rótarrými), þola tímabundinn þurrk og nokkurn vindnæðing. Jafnframt þurfa þær að hafa útlit og vaxtarlag sem á einn eða annan hátt hentar í ker, þétt, smávaxið, hangandi eða sérstakt á einhvern hátt. Blómstrandi plöntur eða blaðfagrar í lit og lögun eru vinsælar í sumarker og sígrænar eða plöntur með litsterkt eða sérstætt vetrarútlit fyrir aðrar árstíðir.

Stakstætt

Stakstæð planta (tré, runni eða fjölæringur) hefur burði út frá útliti og vaxtarformi til að geta staðið ein til prýði fyrir umhverfið. Í flestum tilfellum þarf plantan að vera nokkuð vindþolin og stöðug á rótum til að geta flokkast sem stakstæð planta. Jafnframt þarf hún útlit hennar að vera fallegt allan þann tíma sem hennar nýtur við, t.d. þarf stakstætt tré helst að hafa fallegt vaxtarform sem nýtur sýn allan ársins hring.

Þyrping

Hópur plantna af einni eða fleiri tegundum sem mynda eina samstæða heild. Þyrping af trjám myndar það sem við köllum trjálund, runnar, runnabeðju eða runnaþyrpingu og fjölærar jurtir jurta- eða blómastóð. Þyrpingar með mörgum tegundum er gjarnan kallaðar samplantanir, þar geta tegundirnar verið ólíkar á ýmsan hátt en eiga að mynda samsetningu sem hefur fagfræðilegan samhljóm, líkt og blómavöndur eða sumarblómabeð.

Kantplöntur

Plöntur sem vegna vaxtarform síns henta til að gróðursetja í kanta eða jaðra gróðurbeða. Tilgangurinn er að mynda fallegan og jafnann jaðar, til að loka jaðri, afmarka og aðskilja. Vanalega er um að ræða þéttar, lágvaxnar þekjandi plöntur.