Þol og kröfur til vaxtarstaðar

Plöntur hafa misjafnt þol og gera misjafnar kröfur til vaxtarstaðar. Eftirfarandi eru skilgreiningar á helstu flokkum um þol eða kröfur til vaxtarstaðar.

Skuggþolin

Hálfskuggþolin

Sólelsk

Borgarumhverfi

Þurrkþolin

Þarf skjól

Vindþolin

Saltþolin

Skuggþolin planta

Skuggþolin planta hefur þá eiginleika að geta dafnað vel og jafnvel betur á skuggsælum stöðum þar sem beint sólarljós er í lágmarki, t.d. norðan við hús og undir stærri trjám og runnum sem varpa skugga. Skuggþolnar plöntur hafa að jafnaði þá eiginleika að skyggja undir sig og þannig hindrað eða dregið úr að illgresi vaxi upp.

Hálfskuggþolin planta

Hálfskuggþolin planta hefur þá eiginleika að geta dafnað vel þar sem nokkur skuggi er, þó ekki þar sem mikill skuggi er. Flestar hálfskuggþolnar plöntur dafna einnig vel eða betur á sólríkum stöðum og blómstra þá oft meira og fá sterkari haustliti.

Sólelsk planta

Sólelsk planta dafnar best á sólríkum stað þar sem beinnar sólar nýtur við, t.d. sunnan við hús eða aðrar plöntur skyggja ekki á. Sólelskar plöntur þrífast illa á skuggsælum stöðum og þola að jafnaði ekki samkeppni stórvaxnari eða skuggþolnari plantna.

Borgarumhverfi

Plöntur sem eru bæði harðgerðar og heilbrigðar við skilyrði sem oft finnast í borgar- og götuumhverfi og einkennist af umhleypingum, salt- og rykmengun, ljósmengun, þurrki og vindi. Jafnframt þurfa plönturnar að uppfylla kröfur um nota- og fegurðargildi jafnt sumar sem vetur.

Þurrkþolin planta

Þurrkþolin planta hefur þá eiginleika að geta dafnað vel þó þurrt sé í veðri og lítil vökvun. Þolir einnig að vaxa í þurrum jarðvegi. Að jafnaði eru slíkar plöntur nægjusamar um köfnunarefni en það er þó ekki algilt.

Þarf skjól

Plöntur í þessum flokki gera kröfu á skjólgóðan stað, þar sem ekki næðir um þær. Þetta geta verið tegundir sem eru viðkvæmar og sólelskar eða tegundir sem upprunnar eru úr skógarskjóli og þola þá illa næðing sérstaklega á vetrum. Reynst getur vel að skýla þessum plöntum sérstaklega yfir vetrarmánuðina.

Vindþolin planta

Vindþolin planta hefur þann eiginleika að geta dafnað vel þó um hana næði. Þessar plöntur reynast oft vel til þess að skýla öðrum plöntum og til notkunar í skjólbeltum.

Saltþolin planta

Saltþolin planta hefur þann eiginleika að geta dafnað vel á svæðum þar sem selta berst á land með vindi, eins og algengt er við strendur landsins. Selta getur þó borist furðu langt inn til landsins, jafnvel tugi kílómetra sérstaklega á vestur og suðurlandi. Salt berst einnig á plöntur við vegi sem eru saltaðir. Margar plöntur þola alls ekki seltu og er því erfitt að nota meðfram ströndum landsins.