Fjölærar, jurtkenndar plöntur, eða fjölæringar eins og þær eru kallaðar í daglegu tali, og skrautgrös njóta sívaxandi vinsælda í nágrannalöndum okkar. Framboð og þekking á fjölæringum með margvíslega eiginleika eykst sífellt. Sumir eru sólelskir eða þarfnast mikillar umhirðu en aðrir þrífast vel í skugga eða erfiðum aðstæðum. Þekjandi fjölæringar geta auðveldað umhirðu grænna svæða með því að hefta aðgang illgresis. Notkun skrautgrasa hefur einnig aukist hjá hönnuðum erlendis og hér heima. Með því að nota skrautgrös innan um blómstrandi fjölæringa má ná fram náttúrulíku yfirbragði. Stórvaxnar grastegundir er jafnframt skemmtilegt að nota til rýmismyndunar í görðum og á grænum svæðum.

Líkt og víða annarsstaðar hafa græn svæði hér á landi einkennst af notkun trjáa, runna og grass en vegna aukins áhuga og áhrifa erlendis frá hefur Yndisgróður í samstarfi við gróðrarstöðina Mörk flutt inn fjölda fjölæringa sem ekki hafa verið reyndir hér á landi áður. Í Yndisgarðinum í Fossvogi hafa verið gerðar tilraunir síðastliðin sex ár með þekjandi, skuggþolna fjölæringa. Skrautgrös bættust þar við árið 2016. Jafnframt var komið upp fjölæringabeðum í Yndisgarðinum á Hvanneyri þar sem prófaðar eru bæði skuggþolnar og sólelskar tegundir fjölæringa og skrautgrasa.

Enginn annar hópur plantna býr yfir jafn miklum fjölbreytileika og árstíðarbundnum breytileika og fjölæringar. Sé þeim vandlega valinn staður geta þeir verið áhrifamikill hluti af grænum svæðum. Hægt er að finna tegundir sem henta flestöllum aðstæðum, sól, skugga, þurrum jarðvegi eða blautum. Skrautgildi fjölæringanna felst ýmist í blómum þeirra eða laufverki. Margar skuggþolnar tegundir hafa látlaus blóm en skrautleg blöð með mismunandi lit, lögun og mynstri. Með því að nota þekjandi fjölæringa, með mismunandi svipgerð undir tré og runna, skapast blómleg heild sem er þægileg fyrir augað og krefst lítils viðhalds.


Fjölæringabeð Yndisgarðsins í Fossvogi

Hér er hægt að sjá lista yfir þau yrki sem hafa sýnt góðan árangur í Yndisgörðum þrjú ár í röð.

Latneskt heiti Íslenskt heiti Yrki
Ajuga pyramidalis Lyngbúi ‘Hermann Lundholm’
Alchemilla erythropoda Perlumaríustakkur frá Jelitto
Astrantia major Sveipstjarna ‘Star of Fire’
Astrantia major Sveipstjarna ‘Star of Billion’
Brunnera Búkollublóm ‘Jack Frost’
Geranium endressii x psilotemon Blágresi ‘Patricia’
Geranium himalayense Fagurblágresi ‘Baby Blue’
Geranium macrorrhizum Ilmgresi ‘Spessart’
Geranium macrorrhizum Ilmgresi ‘Stemma’
Geranium sanguineum Blóðgresi
Geranium x magnificum Kóngablágresi ‘Lauka’ finnsk frá MTT
Geum hybridum Skarlatsfífill
Gillenia trifoliata Indíánasnót
Lamium galeobdolon Gulltvítönn ‘Hermanns Pride’
Pulmonaria Nýrnajurt ‘Sissinghurst White’
Sanguisorba tenuifolia Rósakollur ‘Changbai chan’

 

Hér á landi hafa skrautgrös lítið verið notuð, þótt margir þekki randagras sem hefur verið notað nokkuð í garða hér á landi. Helsti gallinn við randagrasið er að það skríður um og þarf því að halda því í skefjum ef það á ekki að fara um allt. Ýmsar tegundir voru prófaðar í Yndisgarðinum í Fossvogi, og má sjá teikningu af upphaflegri útplöntun á vefsíðu Yndisgróðurs (http://yndisgrodur.lbhi.is/yndisgardur-i-fossvogi/). Áhersla er á tegundir sem eru auðveldar í ræktun, þarf ekki að binda upp og dreifa sér ekki of mikið. Eftir tvö ár hafa fengist góðar vísbendingar um hvað virkar og hvað ekki, en tilraunir munu halda áfram.  Garðahálmgresi (Calimagrostis acutiflora) hefur náð þónokkrum vinsældum hjá hönnuðum erlendis síðastliðin ár þar sem það er notað með öðrum hávöxnum fjölæringum til að fá náttúrulíkt yfirbragð. Það er einmitt eitt af grösunum sem hefur staðið sig hvað best í görðunum. Á Hvanneyri hefur hálmgresið brotnað aðeins í haustlægðunum, fyrir opinni norðanáttinni. Óhætt er að mæla með hálmgresi á sæmilega skjólsælum stöðum.

Höfundar: Steinunn Garðarsdóttir og Hlíf Böðvarsdóttir

Mynd við grein: Mjallhæra