Yfirlit yfir sögu skjólbeltaræktunar á Íslandi

Gagnsemi skjólbelta er þekkt. Það hefur verið sýnt fram á það bæði hérlendis og ekki síður erlendis að uppskera eykst til muna hvort heldur er í akuryrkju eða túnrækt, korn leggst síður í fyrstu hauststormum, stjórnun snjóalaga og vatnsbúskapur verður betri, búfé líður betur í skjóli og getur verið lengur úti bæði á vorin og ekki síður á haustin og getur þetta allt bæði bætt nyt og minnkað kostnað.

 Skipulögð skjólbeltarækt hefur verið stunduð á Íslandi í rúmlega hálfa öld. Árangurinn hefur verið misjafn. Sums staðar hefur árangur verið viðunandi en allt of víða sárgrætilega lítill og mörg þau skjólbelti, sem ræktuð hafa verið upp, hafa reynst léleg og endingarlítil. Ástæðan er að verulegu leyti sú að mest hefur verið veðjað á víði í skjólbeltarækt. Víðir hefur ýmsa ókosti í ræktun sem gjarnan koma í ljós við notkun hans í skjólbeltarækt. Flestir þessara galla tengjast því að nær allar víði-tegundir eru svokallaðir frumherjar. Þetta birtist meðal annars í því að víðir endist stutt í ræktun, er mjög ásetinn af skordýrum og sveppasjúkdómum og þolir illa samkeppni um birtu og næringu frá öðrum gróðri. Sjá grein Samsonar B. Harðarsonar í Skógræktarritinu 2009 1.tbl., Um kosti og galla víðis í ræktun.

 Ekki er þó hægt að kenna víðinum um allt sem úrskeiðis hefur farið í skjólbeltarækt. Ýmsar aðrar tegundir, s.s. sitkagreni, alaskaösp og birki, hafa verið reyndar og í minna mæli reynir og ýmsar runnategundir. Árangurinn hefur vanalega haldist í hendur við það hversu gott atlæti beltin hafa fengið á uppvaxtarskeiði sínu og þá umhirðu sem þau hafa fengið eftir að þau eru sprottin úr grasi og farin að veita skjól.

 Víða má sjá falleg sitkagrenibelti, ýmist með öðru eða ein sér. Þau hafa vanalega náð sér best á strik þar sem þau hafa ekki lent undir í samkeppni við aðrar trjá-tegundir, eins og víða varð raunin þar sem greni var gróðursett á milli raða af víði. Með árunum getur greni þó orðið bert að neðan, nema þar sem það hefur verið klippt eða þétt með runnum, eins og rifsi og sólberjum, eins og sjá má í rúmlega 50 ára gömlum skjólbeltum á Hvanneyri. Fallegar alaskasparraðir vaxa víða orðið um sveitir og setja svip á landslagið, en þær verða berleggjaðar einar sér og virka því ekki sem skjólbelti, jafnvel getur farið svo að það trekki undir þær. Það eru einna helst greina-miklir og þéttvaxnir klónar, eins og ‘Keisari’, sem geta myndað skjólbelti einir og sér.

 Birkiskjólbelti eru fremur fáséð til sveita en víða eru birkiraðir og birkilimgerði í bæjum og í gróðrarstöðvum þétt og falleg þar sem þau hafa verið klippt, en þó oftar gisin að neðan. Reyniviður hefur lítið verið notaður í skjólbelti þó má sjá ágæt dæmi víða um allt land. Eitt besta dæmið um reynivið í skjólbelti er að finna í Kjarnaskógi. Það skjólbelti var skipulagt og gróðursett árið 1956 af þeim feðgum Ármanni Dalmannssyni og Jóni Dalmanni Ármannssyni.

 Þrátt fyrir misjafnan árangur í skjólbeltarækt hefur þó nokkuð þokast áfram.

Eftir páskahretið mikla árið 1963 dró mjög úr gróðusetningu almennt og fólk, sér í lagi á sunnan og vestanverðu landinu, missti svolítið móðinn hvað trjárækt varðar. Það var ekki fyrr en um 30 árum síðar sem áhugi á gróðursetningu varð almennur aftur en þá fór ýmsilegt að gerast í skjólbeltaræktinni.

 Með komu plastdúksins, upp úr 1990, fékkst góður liðsauki í baráttunni við grasið sem er alltaf skæðasti óvinurinn í skjólbeltaræktinni. Ekki er þó gallalaust að nota plastdúk, t.d. gerir hann áburðargjöf erfiða auk þess sem hann nær ekki alltaf að halda illgresi niðri og getur hann þá gert illgresishreinsun erfiða.

 Um 1990 mynduðust góð tengsl á milli skógræktarinnar á Íslandi og Heiðafélagsins danska. Árið 1992 fór hópur héðan í námskeiðs- og kynnisferð til Jótlands sem var sérstaklega fyrir Íslendinga. Eftir Jótlandsferðina varð veruleg stefnubreyting í fyrirkomulagi skjólbeltaræktar. Þrjú tilraunaskjólbelti að danskri fyrirmynd voru gróðursett í Árnessýslu að frumkvæði Jótlandsfara; við ströndina, í miðsveitum og í uppsveitum og ýmsar tegundir prófaðar.

 Landshlutabundnu verkefnin, sem flest voru stofnuð um þetta leyti, sóttu nú öll fordæmi til Danmerkur um skipulag þeirra og ræktun. Trjám og runnum var blandað saman og margar tegundir reyndar. Þrátt fyrir það hefur árangurinn verið misjafn og líklegast helst um að kenna röngu og ómarkvissu plöntuvali (m.a. er ennþá alltof mikil notkun á víði), erfiðri baráttu við grasvöxt og skorti á umhirðu. Að hluta til ræðst þetta af reynsluleysi og skorti á rannsóknum í skjólbeltarækt og vali á plöntum fyrir íslenskar aðstæður. Mikilvægt er að kafa betur í aðferðafræði og ríflega 120 ára reynslu Dana í skjólbeltarækt til þess að bæta árangur hérlendis. Þeir standa fremstir á meðal jafningja í þessum efnum.

 Danir höfðu, líkt og Íslendingar, farið þá leið að veðja á fáar, hraðvaxta tegundir, eins og víði, ösp og hvít- og sitkagreni. Þær entust þó almennt illa og skjólbeltin urðu of gisin til þess að veita gott skjól. Jafnvel grenibeltin, sem settu mikinn svip á jósku heiðarnar á fyrri hluta síðustu aldar og virtust gegna sínu hlutverki vel, urðu á endanum gisin að neðan og þjást af rótarmyglu (rodforderver). Danir fóru því að þróa nýja gerð skjólbelta, að hluta til að erlendri fyrirmynd, en fyrirmyndin var ekki síður náttúrulegir skógarjaðrar og trjá- og runnabelti sem víða gaf að líta í búsetu-landslaginu. Þar sáu menn að margar tegundir mynda eina heild og ef sjúkdómar eða óværa leggjast á eina þeirra, þá fyllir önnur í skarðið.

 Hugmyndir um þessa nýju gerð skjólbelta mótuðust á 7. og 8. áratugnum og er best að kynna sér þær í bók Frode Olesen, Læplantning, sem gefin var út árið 1979. Í henni kemur fram að meginmarkmiðið var að rækta skjólbelti sem sameinuðu skjótan vöxt og langan lífaldur. Skjólbeltin eiga að vera úr blöndu af langlífum, stórvöxnum stofntrjám/aðaltrjám og hraðvaxta fósturtegundum, langlífum, skuggaþolnum og skuggavarpandi runnum sem plantað er í þriggja raða belti, eða í fjölraða belti á mjög vindasömum stöðum. Í bók Frode er nánar lýst þeim kröfum sem gerðar eru til þessara blönduðu skjólbelta.

 Heildstæð áætlun hefur ekki verið unnin fyrir skjólbeltarækt á Íslandi. Landshlutabundnu verkefnin, í kjölfar fyrrnefndrar Jótlandsfarar árið 1992, hafa þó mörg hver markað sér ákveðna stefnu varðandi samsetningu og blöndun tegunda í skjólbelti. Skjólbeltabæklingur sem Suðurlandsskógar og Skógarþjónustan á Suðurlandi gáfu út árið 1998 var mikilvægt skref í rétta átt. Einnig gáfu Norðurlands-skógar út bækling árið 2004, þar sem svipuð stefnumótun fór fram. Í úttektar-skýrslum verkefnanna; Suðurlandsskóga árið 2007 og Norðurlandsskóga árið 2008, er haldið áfram í endurmati á tegundavali. Í kafla um Skjólbeltarækt í Skógarbók Grænni skóga, sem Hallur Björgvinsson hjá Suðurlandsskógum og Brynjar Skúlason hjá Norðurlandsskógum rituðu, er stigið sé fyrsta skrefið í samræmingu á landsvísu með þeirri stefnu um að blanda tegundum trjáa og runna í skjólbelti.

 En betur má ef duga skal. Enn ræður víðir ríkjum í skjólbeltarækt. Á tímabilinu 2000 -2007 var notkun runnategunda, annarra en víðis einungis 2% hjá Norðurlands-skógum, 25% var alaskavíðir, 20% viðja, 28% aðrar víðitegundir og 25% ýmsar trjátegundir. Aukning hlutfalls runna af öðrum tegundum en víðis, aðallega rifs, sólberja og yllis, hefur mestmegnis verið á síðustu árum. Mikilvægt er að stefna að mun meiri notkun runnategunda annarra en víðis, auk þess að nota meira af heppilegum, endingargóðum trjátegundum.

Samson Bjarnar Harðarson. 2009. Um kosti og galla víðis í ræktun, Skógræktarritið 2009, bls. 48-58.

Helgi Þórsson. 2000. Skjólbeltaræktun í Eyjafirði. Í Bjarni E. Guðleifsson (ritstj.), Ásýnd Eyjafjarðar. Skógar að fornu og nýju Akureyri: Skógræktarfélag Eyfirðinga. 2000, bls. 185-188.

http://www.skogur.is/um-skograekt-rikisins/frettir/nr/1900

Brynjólfur Jónsson. 1994. Kynnisferð um Jótland. Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1994, bls. 91-105.

Hallur Björgvinsson. 2009. Viðtal/ tölvupóstur, 21. október 2009.

Olrik, Ditte C. Et al. 2002. Design og plantevalg i bredere lövtræslæhegn. Miljöministeriet Forskningscenteret for Skov og landskab. 2002, bls. 9.

Olsen, Frode. 1979. Læplantnig. Landhusholdningsselskabet Forlag. Köbenhavn 1979, bls. 16-17.

Björn B. Jónsson, Hallur Björgvinsson og Gunnar Freysteinsson. Skjólbeltabæklingur. Suðurlandsskógar og Skógarþjónustan Suðurlandi. 1998.

Guðríður Baldvinsdóttir, Valgerður Jónsdóttir og Brynjar Skúlason. 2004. Fræðsluefni um skjólbeltarækt. Norðurlandsskógar. 2004.

Hallur Björgvinsson et.al. 2007. Úttekt á skjólbeltarækt 2006.Suðurlandsskógar. 2007

Rakel J. Jónsdóttir. 2008. Skjólbeltaúttekt Norðurlandsskóga. Úttekt á skjólbeltum, gróðursett 200- 2007. Norðurlandsskógar. 2008.

Hallur Björgvinsson og Brynjar Skúlason. 2006. Skjólbelti. Skógarbók Grænni skóga. Landbúnaðarháskóli Íslands 2006, bls. 177-188.

Rakel J. Jónsdóttir. 2008. Skjólbeltaúttekt Norðurlandsskóga úttekt á skjólbeltum gróðursett 200- 2007. Norðurlandsskógar. 2008.