Yndisgarður á Hvanneyri

Yndisgarðurinn á Hvanneyri er nýjasti garður Yndisgróðurs.  Byrjað var að gróðursetja sumarið 2011 og haldið áfram vorið og sumarið 2012.  Garðurinn er staðsettur í slakkanum norðan við Rannsóknarhúsið.

Garðurinn á Hvanneyri er fyrst og fremst hugsaður sem kennslugarður fyrir nemendur Landbúnaðarháskóla Íslands, þar sem þeir geta fræðst um garð- og landslagsplöntur í tengslum við nám sitt. Hann er þó til sýnis fyrir allan almenning rétt eins og aðrir Yndisgarðar. Hinn almenni garðeigandi getur fræðst um hentugar plöntur til ræktunar á Vesturlandi.

Haustið 2012 voru í garðinum skráð 150 yrki en sumarið 2017 stendur til að stækka garðinn og bæta við beðum. Búið er að gróðursetja fjölæringa og skrautgrös í eitt af þeim beðum sem bætast við. Nánar má lesa um fjölæringa og skrautgrös hér.

Hér má nálgast uppdrátt af yndisgarðinum á Hvanneyri, uppfært 2016

Á Hvanneyri er Yndisgróður jafnframt með rannsóknir á skjólbeltum og er lítið dæmi um skjólbelti staðsett ofan við garðinn – sjá upplýsingar um verkefnið Skjólbelti framtíðar.

 Loðvíðisafni var komið upp á Hvanneyri árið 2017 og er staðsett austan við skólabygginguna, Ásgarð. Upplýsinar um rannsóknir Yndisgróðurs á íslenskum víðitegunudm má sjá hér

 Loks er gaman að segja frá því að býflugnadrottningin Hvönn flutti með sitt bú í garðinn vorið 2017, sjá frétt um það hér. Garðurinn er orðinn vel gróinn og ætti að vera notalegt afdrep fyrir Hvanneyringa og aðra gesti til að slaka á í fallegu umhverfi með býflugum og blómum.

Fallegur sumardagur í Yndisgarðinum á Hvanneyri 19. júlí 2016.

Séð yfir hluta garðsins í júlí 2016.

Við fyrstu gróðursetningu í garðinum á Hvanneyri 28. júlí 2011.  Hafnarfjall tignarlegt í baksýn.

Garðurinn á fyrsta ári, 2011. Séð til norðurs – gamla Skólastjórahúsið í baksýn.