Hvaða tegundir ætti að nota í skjólbelti framtíðarinnar?

-æskilegir eiginleikar plöntutegunda í skjólbelti

Sáralitlar rannsóknir hafa verið gerðar á tegundavali í skjólbeltarækt, nema þá helst með víði. Lítilsháttar hefur verið reynt af nokkrum tegundum í landshlutabundnu verkefnunum, sérstaklega eftir árið 2000, en enn er of snemmt að meta árangurinn svo treystandi sé á með vissu. Mikil reynsla er af ræktun fjölda tegunda runna og trjáa í garðrækt. Fáar rannsóknir hafa þó verið gerðar á sviði garð- og landslags-plantna. Reynslan er samt sem áður nokkuð víðtæk, enda hafa íslenskir ræktendur unnið ötullega að því að safna saman í reynslubankann, drifnir áfram af einlægum ræktunaráhuga og má víða sjá gróskumikinn gróður sem myndar fallegt og skjólsælt umhverfi í byggðum landsins.

Á þessum mikla reynslubanka má byggja rannsóknir á nýrri gerð skjólbelta. Rannsóknir Yndisgróðurs eru notaðar við tegundaval fyrir nýja gerð skjólbelta. Í grein sem Samson Bjarnar Harðarson ritaði í skógræktarritið 2009 2.tbl. Um plöntuval og hlutverk plantna í skjólbeltum, setur hann fram tillögu að stefnumótun um hvaða eiginleika plöntutegundir fyrir skjólbeltarækt á íslandi þurfa að uppfylla. Þessi listi er byggður að nokkru á þeim lista sem Frode Olsen setti fram í bókinni Læplanting,[i] en einnig á mati um gæði garð- og landslagsplantna í Yndisgróður verkefninu.

 

Æskilegir eiginleikar plöntutegunda í skjólbelti

Vindþol: Þol tegundar til þess að vaxa og dafna í vindasömum umhverfi, jafnvel þó svo vaxtarlagið mótist af vindi.

Saltþol: Möguleiki tegundar til þess að þola saltmengað loftslag, þar sem áhrifa gætir frá hafi.

Vaxtarlag við vindálag: Möguleiki tegundar til þess að vaxa upprétt undir vindálagi.

Rótarfesta: Þol tegundar gegn rótarsliti- og veltu.

Þol til klippingar: Möguleiki tegundar til þess að þola klippingu í hliðum.

Þol til niðurklippingar: Möguleiki tegundar til þess að þola endurnýjun við niðurklippingu á gildari greinum.

Skuggaþol: Möguleiki tegundar til þess að vaxa og dafna í skugga.

Þol gegn jarðvegsþurrki: Möguleiki tegundar til þess að þrífast í þurrum, mögrum jarðvegi, s.s. á lyngmóum og sendnum svæðum.

Þol við blautum jarðvegi: Möguleiki tegundar til þess að þrífast í blautum og köldum jarðvegi, eins og mýrarjarðvegi.

Mótstöðuþol gegn sjúkdómum og skaðvöldum; s.s. gegn ryðsveppi og fiðrildalirfum.

Vaxtarhraði: Á fyrst og fremst við það hvað fósturtegundir vaxa hratt á yngri árum.

Lífaldur: Viðbúinn lífaldur í skjólbeltum; 1: undir 20 ár, 2: 20-40, 3: 40-60, 4: 60-80, 5: 80-100.

Stofntré: Langlíf, hávaxin tré sem henta sem varanleg tegund í blönduðum skjólbeltum. Í blönduðu skjólbelti er það kostur að trén séu ljóstré, þ.e. hleypi mikilli birtu fram hjá sér, svo runnagróður og lágvaxnari tré geti þrifist undir þeim. Mjög gráðugt rótarkerfi getur verið ókostur.

Eiginleikar til einnar raðar skjólbelta og í limgerði: Trjátegundir sem henta í einnar raðar skjólbelti og einnar tegundar limgerði, þurfa að halda greinum langt niður og/ eða bregðast vel við hliðarklippingu með fjölda nýrra greina. Skuggaþol er almennt kostur.

Fósturtegundir: Hraðvaxta trjá- og runnategundir sem henta til bráðabirgða í blönduð skjólbelti. Frumherjategundir með örverusambýli sem framleiðir köfnunarefni er mikill kostur, s.s. elri. Örverulíf við rótarkerfi loðvíðis og gulvíðis hefur jákvæð áhrif á vöxt birkis[ii].

Eiginleikar sem undirgróður: Runnar sem geta myndað varanlegan undirgróður í blönduðum skjólbeltum. Þær tegundir sem eru úthaldsgóðar, skuggaþolnar og endurnýja sig auðveldlega, henta vel í skjólbelti, s.s. sólber, fjallarifs og glótoppur. Sólelskir runnar sem skríða lítillega, eiga auðveldara með það að endurnýja sig og vaxa undan skugga, s.s. fjallarós, ígulrós og hafþyrnir.

 

Olsen, Frode. 1979. Læplantnig. Landhusholdningsselskabet Forlag. Köbenhavn 1979, bls. 68.

Magnússon, S. H., and B. Magnússon. 2001. Effect of enhancement of willow (Salix spp.) on establishment of birch (Betula pubescens) on eroded soils in Iceland. Pages 317-329 í F. E. Wielgolaski, editor. Nordic Mountain Birch Ecosystems. UNESCO, Paris, and Parthenon Publishing, Carnforth.