Northern Periphery Programme
Yndisgróður og samvinna á vegum Norðurslóðaáætlunar (Northern Periphery Programme) (NPP)
Frá og með 1. júlí 2009 er Yndisgróðursverkefnið þátttakandi á vegum Norðurslóðaáætlunar í verkefninu “New Plants for the Northern Periphery Market” (NPNP) og mun það móta áframhaldandi starf Yndisgróðurs. Með þátttöku í Norðurslóðaáætluninni framlengist starfstími Yndisgróðursverkefnisins um tvö ár eða til 30.júní 2013 í stað 30. júní 2010. Verkefnið gengur í meginatriðum út á það sama og upprunalegt verkefni Yndisgróðurs, að rannsaka harðgerðar og verðmætar plöntur til notkunar á norðurslóð og koma þeim á markað.
Meginmarkmið NPNP er að auka fjölbreytni, sjálfbærni og viðskiptatækifæri á norðurslóð með því að gera garðplöntuframleiðendum kleift að framleiða aðlagaðan plöntuefnivið á heimaslóð.
NPNP ætlar að ná markmiðum sínum með að þróa nýja markaði, byggja upp þekkingu á ræktun nýrra plantna við þau sérstöku skilyrði sem ríkja á norðurslóðum. Byggja upp netverk til þess að yfirfæra þekkingu á milli þátttakenda og almennings og skiptast á plöntuefnivið á milli svæða. Eitt af aðalverkefnunum er að byggja upp sýnigarða og klónasöfn, sem er einmitt stór liður í verkefnum Yndisgróðurs. Tímabil verkefnisins er 2009 – 2012.
Verkefnið er unnið í samvinnu við Sveitarfélagið Piteå í N-Svíþjóð sem er leiðandi aðili, Agronomy Institute – Orkney College UHI í Skotlandi, Agrifood MTT í Finnlandi og Botanical Gardens, University of Oulu í Finnlandi.