Skjólbelti og uppbygging þeirra – hlutverk mismunandi plantna í uppbyggingu skjólbelta

Til þess að átta sig betur á því hvers konar tegundir þarf til ræktunar endingargóðra skjólbelta, er þarft að kanna það umhverfi sem skjólbelti mynda, hvaða hlutverk mismunandi plöntur hafa í uppbyggingu skjólbelta og svo að sjálfsögðu hvers konar veðurfars og jarðvegsaðstæður eru á hverjum stað.

Skjólbelti eru ein eða fleiri raðir trjáa og eða runna sem eiga að mynda einhvers konar vegg sem hefur það hlutverk að brjóta vind niður í smáa vindsveipi[i] sem rekast hver á annan og draga þannig kraftinn úr vindinum. Talað er um það að mesti árangur fáist þegar beltið hefur um 35-50% opnun, eða holrýmd. Til þess að halda beltum þetta þéttum, þarf tegundir sem greina sig mikið alveg frá jörðu. Jafnframt þarf beltið að ná nokkurri hæð svo að það gefi skjól, því samkvæmt skjólbelta-fræðunum getur gott skjólbelti skýlt vel allt að 15 sinnum hæð sinni[ii]. Það eru fáar tegundir sem uppfylla bæði það að verða háar og halda greinamassa sínum niður að jörðu. Það er tilhneiging hjá öllum stórvaxnari tegundum að gisna að neðan þegar þær vaxa upp. Sum tré þola lítinn skugga, eins og lerki og kvista sig fljótt upp, önnur, eins og greni, halda greinunum miklu lengur. Það sem ræður þessu er skuggaþol tegunda. Að sama skapi er það nokkuð breytilegt hversu miklum skugga hver tegund varpar frá sér. Það fer þó vanalega saman við það hversu skuggaþolin tegundin er. Skuggaþolin tré, eins og greni og hlynur, varpa miklum skugga, sólelsk tré, eins og reynir og lerki, varpa léttum skugga.

Trjátegundir eru því misheppilegar í skjólbelti. Skuggaþolnu tegundirnar eru oft góðar einar sér, en fara illa í samplantanir vegna skuggavarps síns, en þær sólelsku eru of gisnar einar og sér en góðar í sambýli við önnur tré og runna. Fyrr eða síðar missa öll tré neðstu greinar sínar. Vegna þessara eiginleika er erfitt að rækta skjólbelti sem halda þéttleika sínum til framtíðar og eru einungis samsett af trjám. Runnar eru því nauðsynlegir til þess að halda beltunum þéttum niður að jörðu. Þeir eru þó mis skuggaþolnir, líkt og trén. Í þriggja og fjölraða skjólbeltum lendir alltaf ein eða fleiri raðir í skugga og þá reynir á skuggaþol runnanna, en í jaðarröðum er hægt að nota sólelskari runna.

Hér má skoða uppdrátt af uppröðun plantna í þriggja raða skjólbelti.

Í skjólbeltarækt er mest þörf fyrir skuggþolna runna. Þeir skuggaþolnu eru aðlagaðir að mjög takmarkaðri birtu undir laufskermi trjáa, t.d. dúntoppur, glótoppur, snjóber og ýmsar rifstegundir. Flestar tegundir þurfa þó meiri birtu en svo og þrífast ekki nema í skógarjöðrum, þar sem þeir fá fulla birtu einhvern hluta dagsins. Dæmi um slíkar tegundir eru fjallarós, sumar reynitegundir, ýmsir toppar, garðakvistill, úlfa- og bersarunni og heggur. Í töflu hér að neðan er tegundum runna og trjáa raðað upp eftir skuggaþoli og framvinduflokki.

Mjög ljóselskar.

Frumherjar

Fremur ljóselskar.

Síðfrumherjar

Hálfskugga-þolnar.

Miðbik

Skuggaþolnar.

Drottnunar-tegundir

Mjög skuggaþolnar.

Drottnunar-tegundir

Birki Betula

Ösp Populus

Víðir Salix

Elri Alnus

Askur Fraxinus

Gullregn Laburnum

Reynir(heilblaða)Sorbus

Eik Quercus

Reynir fjaðurskipturSorbus

Hlynur Acer

Heggur Prunus padus

ÞyrnarCrataegus

Álmur Ulmus

Lind Tilia

AgnbeykiCarpinus

Beyki Fagus

Fura tvínála (berg og fjalla)Pinus

Lerki Larix

Fura fimmnála og stafa Pinus

Einir Juniperus

Greni (sitka) Picea

DögglingsviðurPseudostuga

Greni (rauð) Picea

Sýpruss Chamaesyprus

Lífviður Thuja

Þinur Abies

Þöll Tsuga

Ýviður Taxus

Sópar Cytisus

HafþyrnirHippophae

SilfurblaðEleagnus

RunnamuraPotentilla

Rósir Rosa ígul-/þyrnirós

Amall Amelancier

MisplarCotoneaster

Rósir (fjalla)Rosa

Kvistir Spiraea

Sýrena Syringa

Beinviður Euonymus

Hyrnar Cornus

Toppar Lonicera

KvistlarPhysocarpos

Rifs (berja)Ribes

Klungur/ hindber Rubus

Yllir Sambucus

Hesli Corylus

ÚlfarunnarViburnum

Toppar Lonicera

RifstegundirRibes

ReyniblaðkaSorbaria

SnjóberSymphoricarpus

 

 

Hallur Björgvinsson og Brynjar Skúlason. 2006. Skjólbelti. Skógarbók Grænni skóga. Landbúnaðarháskóli Íslands 2006, bls. 178.

Hallur Björgvinsson og Brynjar Skúlason. 2006. Skjólbelti. Skógarbók Grænni skóga. Landbúnaðarháskóli Íslands 2006, bls. 178.

Samson Bjarnar Harðarson, Um plöntuval og hlutverk plantna í skjólbeltum, 2009 b.