Um Yndisgróður
Yndisgróður er verkefni sem gengur út á að skilgreina, flokka, rannsaka og miðla upplýsingum um garða- og landslagsplöntur, þ.e. þann græna efnivið sem notaður eru til uppbyggingar á grænum svæðum s.s. görðum, útivistarsvæðum, skjólbeltum osfv.
Ræktun og notkun garð-og landslagsplantna er vaxandi hér á landi og helst hún í hendur við aukinn áhuga almennings sem og opinberra aðila á garðrækt. Nú eru í ræktun fjöldi tegunda og yrkja, sem nær öll eru af erlendum uppruna, og með niðurfellingu tolla á innfluttum garðplöntum má reikna með að þeim fjölgi enn frekar á næstu árum. Innfluttar plöntur af mismunandi uppruna ryðja nú gamalreyndum íslenskum yrkjum og kvæmum af markaði. Allur þessi efniviður hentar misvel fyrir íslenskar aðstæður og því er brýnt að velja úr og aðgreina sérstaklega það sem reynst hefur best í ræktun hér til hagsbóta fyrir neytendur og framleiðendur.
Markmið verkefnisins eru: (i) að skilgreina og afmarka þann efnivið sem vinna skal með og flokka mikilvægar tegundir út frá notagildi, (ii) að skrásetja yrki og kvæmi valdra tegunda sem ræktaðar eru með góðum árangri hérlendis og lýsa mikilvægum eiginleikum, (iii) safna helstu yrkjum og kvæmum trjáa og runna í klónasafn á Reykjum til varðveislu og síðari rannsókna (iv) gera rannsóknir á skilgreindum yrkjum mikilvægra tegunda og leggja grunn að úrvalsplönturannsóknum, (v) að koma á tengslum milli rannsóknaraðila, hagsmunaaðila og almennings og miðla upplýsingum til þessara aðila. Afrakstur verkefnisins er listi yfir yrki og kvæmi sem mælt er með í ræktun hérlendis og birtur er á heimasíðu verkefnisins.
Ávinningur verkefnisins er fyrst og fremst bætt gæðastýring í plöntuvali og garðplöntuframleiðslu. Það mun skila betri plöntum, betri árangri og minni umhirðukostnaði til hagsbóta fyrir framleiðendur, seljendur og almenning í landinu.
Yndisgróðursverkefnið er þátttakandi á vegum Norðurslóðaáætlunar í verkefninu “New Plants for the Northern Periphery Market” (NPNP) og mun það móta áframhaldandi starf Yndisgróðurs. Verkefnið gengur í meginatriðum út á það sama og upprunalegt verkefni Yndisgróðurs, að rannsaka harðgerðar og verðmætar plöntur til notkunar á norðurslóð og koma þeim á markað.
Þær tegundir, yrki og kvæmi plantna sem birtar eru á heimasíðunni eru af meðmælalista Yndisgróðurs. Til þess að plöntur uppfylli þær kröfur að komast á meðmælalistann þurfa þær að vera harðgerðar, nytsamar og verðmætar tegundir sem góð reynsla er af í ræktun hér á landi.
Í plöntuleit er hægt að leita að plöntum af meðmælalista Yndisgróðurs eftir ýmsum leiðum og fá gagnlegar upplýsingar um t.d. útlit, þol og kröfur plöntunnar, einnig hvar og hvernig er best að nota hana. ATH! Sumar plöntur á lista Yndisgróðurs eru ekki í almennri framleiðslu og getur því framboð á þeim verið mjög takmarkað. Í sumum tilfellum fást þær einungis á einni eða fáum gróðrastöðvum og/eða eru framleiddar í mjög litlu upplagi. Búast má við að með veru sinni á lista Yndisgróðurs komist þessar plöntur í almennari ræktun.