Harðgerði og vaxtarsvæði

Einar mikilvægustu upplýsingar sem ræktendur leita eftir er hversu harðgerðar tegundir eru og hvar þær geta þrifist. Yndisgróður hefur í samvinnu við rannsóknarstöð Skógræktar Ríkisins á Mógilsá gert kort yfir vaxtarsvæði á Íslandi og er að nokkru sambærilegt harðgerðis svæðakortum sem notuð eru í nágrannalöndum okkar.  Þar er löndunum skipt upp í svæði eða zone eftir veðurfarsskilyrðum.  Við hverja plöntu er svo skráð á hvaða svæði viðkomandi planta á að geta þrifist.

Hér á landi hefur verið stuðst við gömlu úttektina frá Hauki Ragnarssyni um skógræktarskilyrði, en ljóst þykir að þau gildi henta ekki í öllum tilfellum í garðræktinni.   Á því korti er landinu skipt upp í fjögur svæði út frá mismunandi veðurfarsskilyrðum.  Svæði 1 á að vera best en svæði 4 lakast.  Reynslan í garðrækt sýnir okkur þó að ef til vill megi rækta fleiri tegundir á svæði 3 en t.d. á svæði 1.

Nú er verið að endurskoða þetta kort þar sem meira tillit er tekið til garðræktar. Kort Hauks hefur verið hnitsett og gert stafrænt. Nöfnum á flokkum hefur verið breytt úr svæði 1,2,3 og 4 í svæði A,B,C,D og nýjum flokki bætt við (fellur inn í svæði D) sem sýnir efstu mörk trjágróðurs og byggir á hitakorti frá Veðurstofu Íslands sem sýnir hitameðaltal 6,8 °C  í júní til ágúst á árunum 1961-1990.  Planta sem þrífst um allt land fær merkt við alla bókstafina (A,B,C,D) en planta sem er bara örugg á svæði A fær einungis merkt við þann bókstaf.

Hér á eftir er lögð fram tillaga að nýju korti sem unnið hefur verið í samvinnu LbhÍ og Mógilsár, tekið skal fram að þetta kort er enn í vinnslu.

Sækja kort í fullri upplausn

Skýringar:

Svæði A: Hafrænt loftslag þar sem meðalhiti júní til loka september (tetraterm) er meiri en 8,5-9°C og meðalhiti febrúar og mars yfir 0°C. Vaxtartímabil þ.e. dagar með hita yfir frostmarki er 100-110 daga. Þessa svæði einkennist af hafrænu loftslagi með löngum mildum sumrum en er vindasamt og með óstöðugum og mildum vetrum og mikil saltágjöf sérstaklega næst ströndinni. Víða mjög góð skilyrði til ræktunar á skjólsælli svæðum. Hinsvegar slæm þar sem samanfer skjólleysi, salt og rýr jarðvegur.

Svæði B: Er það svæði þar sem meðalhiti júní til loka september (tetraterm) er meiri en 8,5°C og meðalhiti febrúar og mars undir 0°C. Vaxtartímabil þ.e. dagar með hita yfir frostmarki er 90-100 dagar. Á þessu svæði eru sumur hlý en styttri en á svæði A. Vetur eru kaldir og minna um umhleypinga eins og nær ströndinni. Hér eru bestu skógræktarskilyrði á landinu.

Svæði C: Svalara og vindasamara en svæði B en víða góð ræktunarskilyrði er dregur frá opnu hafi og þar sem skjól er fyrir köldum norðan áttum. Meðalhiti júní til loka september (tetraterm) er minni en 8,5°C og meðalhiti febrúar og mars undir -0,5°C. Vaxtartímabil þ.e. dagar með hita yfir frostmarki er 75-85 dagar.

Svæði D: Svöl og vindasöm sumur, köld norðanátt sumar og vetur, erfið ræktunarskilyrði nema í góðu skjóli. Hér er meðalhiti júní til loka september (tetraterm) er minni en 6,8-8,0°C og meðalhiti febrúar og mars undir 0°C. Vaxtartímabil þ.e. dagar með hita yfir frostmarki eru færri en 75 dagar.